Helgi Páll Þórisson var í dag kynntur til sögunnar sem nýr aðalþjálfari karlaliðs SR. Honum til aðstoðar verður Ævar Þór Björnsson.
Í byrjun mánaðarins óskaði Milos eftir því að stíga til hliðar sem þjálfari karlaliðs SR og einbeita sér 100% að uppbyggingarstarfi í yngri flokkum félagsins. Honum fannst hann ekki geta sinnt báðum hlutverkum nægilega vel en mikil og stöðug fjölgun hefur verið í barnastarfinu sem krefst alls hans tíma og athygli. Kári aðstoðarþjálfari ákvað einnig að stíga til hliðar. Við þökkum þeim fyrir þeirra störf fyrir félagið en við njótum áfram þeirra krafta sem leikmanna liðsins.
Árangur liðsins í upphafi tímabilsins hefur ekki verið eftir væntingum sem eflaust má rekja til óstöðugleika í þjálfaramálum í ár. Nýja þjálfarateymið tekur strax við og byrjar að vinna með liðinu að því að fínstilla leik þess. Við erum með frábæran leikmannahóp og eigum heilmikið inni eins og sést hefur í jöfnum og fjörugum leikjum Herzt-deildarinnar.
Helgi Páll Þórisson er íshokkíáhugamönnum að góðu kunnur, gamlareyndur SR-ingur sem er hokinn af reynslu. Hann hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari sem leikmaður með SR, þar af tvisvar sem fyrirliði og aðstoðarfyrirliði. Helgi spilaði 10 ár með landsliðinu, hefur þjálfað flesta flokka hjá SR og verið aðstoðarþjálfari í karla og kvennalandsliðinum ásamt U20. Hann hefur líka látið til sín taka í félagsstarfi íshokkíhreyfingarinnar – hefur bæði verið í stjórn og formaður íshokkídeildar SR, aðalfélags Skautafélags Reykjavíkur og Íshokkísambands Íslands. Auk alls þess hefur Helgi verið viðloðandi dómgæslu síðustu 20 árin sem línudómari, aðaldómari og eftirlitsdómari.
Ævar Þór er einnig SR-ingur í húð og hár, stóð 10 tímabil á milli stanganna í karlaliði SR, m.a. þegar við urðum Íslandsmeistarar 2009, ásamt því að spila með unglinga- og karlalandsliði Íslands. Ævar hefur verið að gera frábæra hluti sem markmannsþjálfari allra flokka hjá SR vetur, verið að dæma í Hertz-deildinni og staðið sem herforingi á bekknum í síðustu leikjum SR.
Við bjóðum þá velkomna til starfa og óskum þeim alls hins besta í þeirri baráttu sem framundan er.