Fjarvera Sölva Atlasonar, eins af beittustu sóknarmönnum SR, hefur vakið athygli núna í byrjum þessa tímabils – en hann ákvað að reyna fyrir sér erlendis í vetur. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið lykilmaður í SR og var m.a. fimmti stigahæsti leikmaður liðins á síðasta tímabili.
Sölvi spilar nú með U20 liði RoKi í 60 þúsund manna borg að nafni Rovaniemi í N-Finnlandi. Borgin er höfuðstaður Lapplands og liggur á norðurheimskautsbaugnum. Sölvi komst að hjá liðinu með aðstoð Vlado landsliðsþjálfara Íslands en hann hefur verið búsettur í Finnlandi í áratugi.
En hvernig líkar Sölva dvölin?
„Mjög vel. Ég fékk góðar móttökur, æfingaaðstaðan er frábær og liðið gott. Allt bara nokkuð gott sem sagt.“
Hver er helsti munurinn á Reykjavík og Rovaniemi – hokkílega séð?
„Það er meiri agi hér, fleiri æfingar og æfingarnar eru á betri tímum heldur en á Íslandi. Það eru jafn mörg svell í einni höll hérna og það eru á öllu Íslandi. Síðan er samstarfið á milli skóla og íþróttar mun betra.“
En hvernig er daglegt líf hjá þér í Rovaniemi?
„Reykjavík og Rovaniemi eru svo sem ekkert ólíkar en ég er í námi meðfram íshokkíínu að læra að kenna börnum og þjálfa.“
Nú ertu búinn að spila 12 leiki sem slagar hátt upp í heildarfjölda leikja tímabilsins á Íslandi og það er bara miður október?
„Já leikjaskipulagið hérna er allt annað, við spilum nánast hverja helgi, bæði laugardag og sunnudag. Ég er búinn að fá meiri og meiri spilatíma með hverjum leik og finn fyrir miklum mun frá fyrstu leikjunum.“
Hversu mikilvægt er það fyrir ungan og efnilegan leikmann að reyna fyrir sér erlendis?
„Mér fannst það mjög mikilvægt fyrir mig að fara út að spila, aðallega af því að það er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að prófa og upplifa en einnig vegna þess að maður fær svo mikla reynslu af þessu. Hérna úti veistu aldrei við hverju þú átt að búast þar sem þú hefur ekki spilað á móti neinum af þessum einstaklingum áður – þú þekkir ekki spilataktík andstæðingsins eins og maður gerir heima. Fyrir utan allt þetta þá er þetta ótrúlega skemmtilegt, það er allt á miklu hærra leveli heldur en heima sem er gaman að upplifa.“
Nú er HM á Íslandi í apríl – ertu spenntur að spila heima fyrir framan samlanda þína?
„HM kveikir alltaf í manni hvort sem maður er að spila heima eða ekki. Ég fékk aðeins að smakka stemmninguna á U20 mótinu í Laugardalnum í byrjun þessa árs en ég býst samt við því að HM karla verði töluvert stærra. Svo er HM kvenna líka fyrir norðan í febrúar svo það verður gaman að vera íshokkíaðdáandi á Íslandi.“
Hvernig metur þú möguleika landsliðsins í vetur – komumst við upp um riðil?
„Við ætluðum upp í fyrra en það tókst ekki. Þannig að ef við ætlum að vinna í ár þurfum við að vera betur undirbúnir. Íslandsmótið er búið nokkrum vikum fyrir HM þannig að menn þurfa að halda sér í topp formi.“