Bikarmót ÍSS í Skautahöllinni Laugardal

16/10/2018

Bikarmót Skautasambands Íslands fór fram um síðastliðna helgi í höllinni okkar hér í Laugardalnum.

Um 50 stúlkur kepptu að þessu sinni í 8 keppnisflokkum. Á laugardeginum luku keppendur í flokkum Intermediate Novice og Intermediate Ladies. Í intermediate Novice var það Edda Steinþórsdóttir sem bar sigur úr býtum, Natalía Rán Leonsdóttir tók annað sætið og Ólöf Thelma Arnþórsdóttir það þriðja, allar eru þær iðkendur í Skautafélagi Reykjavíkur.

Í flokknum Intermediate Ladies bar Eva Björg Halldórstóttir úr Skautafélagi Akureyrar sigur úr býtum, Berglind Óðinsdóttir úr Skautafélginu Birninum tók annað sætið og Hildur Bjarkadóttir, einnig úr Birninum það þriðja.

Þann daginn fór einnig fram keppni í stuttu prógrami í efstu keppnisflokkum, en hélt sú keppni áfram á sunnudeginum með frjálsu prógrammi í sömu flokkum.

Keppni á sunnudeginum hófst með barnaflokkum.  Flokkar Chicks og Cubs byrjuðu daginn, en þar er ekki raðað í verðlaunasæti og fá allir keppendur þátttökuviðurkenningar.  Næst á dagskrá var svo keppni í  Basic Novice.  Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir, Skautafélagi Akureyrar tók gulllið, Kristín Jökulsdóttir úr Skautafélagi Reykjavíkur tók silfrið og Tanja Rut Guðmundsdóttir frá Skautafélaginu Birninum bronsið.  Þá var gert hlé fyrir verðlaunaafhendingu og heflun íss en eftir það hlé hélt keppni áfram í ISU flokkum sem hafði hafist deginum á undan.

Byrjað var á keppni í Advanced Novice. Rebekka Rós Ómarsdóttir frá Skautafélagi Reykjavíkur var með góða forystu frá deginum áður og jók hana töluvert og vann því með  yfirburðum sinn flokk. Í öðru sæti var Júlía Rós Viðarsdóttir, Skautafélagi Akureyrar og það þriðja féll í hendur Júlíu Sylvíu Gunnarsdóttur, Skautfélaginu Birninum,  sem hafði vermt annað sætið deginum áður.

Næst var svo keppni í Junior Ladies. Sú keppni var mjög spennandi, enda margir keppendur nokkuð jafnir stigum deginum áður og keppni því hörð. Var það Aldís Kara Bergsdóttir, Skautafélagi Akureyrar sem bar sigur úr býtum. Í öðru sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir, Skautafélagi Reykjavíkur og Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir, Skautafélagi Akureyrar skautaði sig upp úr fjórða sæti, í það þriðja frá deginum áður.

Í lok dags var svo keppni í Senior Ladies, en þar kepptu tvær konur. Eva Dögg Sæmundsdóttir, Skautafélaginu Birninum var með fjögurra stiga foryrstu eftir fyrri daginn, en fór svo að Margrét Sól Torfadóttir, Skautafélagi Reykjavíkur lauk svo keppni rúmum 6 stigum ofar Evu Dögg þegar bæði prógrömm höfðu verið skautuð.

Óskar Skautafélag Reykjavíkur öllum keppendum til hamingju með frábæran árangur og vill koma á framfæri þökkum til foreldra og aðstandenda fyrir þeirra stuðning. Enn fremur viljum við þakka sjálfboðaliðum þessa helgi fyrir sitt framlag, en án þeirra væri keppni sem þessi óframkvæmanleg!

 

Myndir eru fengnar að láni af facebooksíðu Skautasambands Íslands.