Æfingagjöld á tímum COVID-19

02/04/2020

Kæru iðkendur og aðstandendur Listhlaupadeildar SR.

Hefðbundið íþróttastarf liggur niðri og mikil óvissa ríkir um hvenær starfið getur hafist að nýju. Þjálfarar okkar hafa verið duglegir að bregðast við aðstæðum, setja upp æfingaáætlanir og nú bætast fjaræfingar við og mun bæði halda áfram á meðan samkomubannið er í gildi. Virkilega ánægjulegt er að sjá dugnaðinn og þrautseigjuna sem iðkendur okkar sýna á þessum skrítnu tímum.

Við viljum biðja foreldra/forráðamenn um að sýna biðlund og skilning í þessum erfiðu aðstæðum sem íþróttafélögin eru í. Skautafélag Reykjavíkur er ekki rekið í hagnaðarskyni og fara æfingagjöld iðkenda upp í laun okkar frábæru þjálfara. Svo hægt sé að standa við gerða samninga eru æfingagjöld nauðsynleg fyrir okkar starfsemi. Við biðjum þá sem eiga eftir að ganga frá greiðslu æfingagjalda að gera það sem fyrst.

Íþróttir eru hluti af aðgerðaráætlun ríkis og Reykjavíkurborgar í efnahagsmálum vegna COVID-19 en nánari útfærsla liggur en ekki fyrir að svo stöddu. Skautafélag Reykjavíkur vill koma til móts við alla iðkendur félagsins en með hvaða hætti það verður gert er óráðið. Við munum láta ykkur vita um leið og hlutirnir skýrast.

Stöndum öll saman svo hægt sé að halda áfram þar sem frá var horfið með okkar frábæra íþróttastarf þegar samkomubanni lýkur.

kveðja,
þjálfarar og stjórn LSR.